þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Lífið getur breyst mikið á stuttum tíma...

Hvað hefur ekki breyst undanfarna mánuði:
Sólin kemur upp á morgnana (oftast þó falin bak við þung og næstum svört rigningarský)
Sami apinn í Seðlabanka Íslands
Sami apinn forsætisráðherra á Íslandi
Sami apinn forsætisráðherra í Bretlandi
Búið að kjósa nýjan og mjög svo heillavænlegan forseta í Ameríku

Hvað hefur breyst eða mun breytast á allra næstu dögum eða vikum:
Ísland hefur farið 30 ár aftur í tímann, bankarnir ríkisreknir, gjaldeyrishöft og þar fram eftir götunum
Annar hver Íslendingur er á Facebook - okkar leið til að halda sambandi við fólkið sem við höfum unnið með jafnvel árum saman
Ég er að missa vinnuna
Ég er að missa húsnæðið
Ég ætla að fara í ferðalag um heiminn og skoða Japan, Ástralíu og Nýja Sjáland. Það sem getur hugsanlega komið í veg fyrir þá ferð er ný vinna...

Þetta hefur verið skrýtið ástand undanfarnar vikur svo ekki sé meira sagt. En ég held að heimurinn hafi þurft á þessu að halda og þetta sé byrjunin á einhverju nýju og meira spennandi og meira mannlegu. Held að ansi margir hafi verið á þokkalegu eyðslufylleríi og eins og við vitum þá eru slæmir timburmenn fylgifiskar fyllería en þeir líða hjá og allt verður gott aftur :-) Þó ég hafi sjálf á vissan hátt verið þátttakandi í fylleríinu þá vil ég nú samt trúa því að ég hafi ekki gleymt upprunanum og að ég hafi aldrei átt heima í fjármálabransanum. En kannski er ég bara í afneitun á eigin göllum!!

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Að láta sér detta í hug...

að ætla að endurgera eina frábærustu bíómynd sem gerð hefur verið. Ef ég væri trúuð þá myndi ég jafna þessu við argasta guðlast.

Það þykir sannað að Bretar séu með þeim verri þegar kemur að hegðun og almennum mannasiðum um leið og þeir yfirgefa sitt ástkæra föðurland. Og ég verð nú bara að segja að það kemur mér lítið á óvart því þeir eru lítið skárri innanlands verð ég að segja. Það þykir bara töff að muna ekki hvað gerðist kvöldið áður, æla í handtöskuna sína til að losna við £50 ælusekt í leigubílnum o.s.frv. Þannig að það er ráð að forðast ferðamannastaði sem Bretar flykkast til í stórum hópum!

Annars hefur ýmislegt á daga mína drifið síðan síðast en það verður að bíða betri tíma að skrifa um fríið heima á Íslandi og viku í steikjandi hita í Tyrklandi - reyni þá kannski líka að smella inn nokkrum myndum.

föstudagur, júní 06, 2008

Tafir í neðanjarðarlestarkerfinu...

Það er ýmislegt sem getur valdið töfum í 'öndergrándinu'. Algengast er að viðhaldsframkvæmdir sem fara fram á nóttunni dragist á langinn og ekki náist að klára áður en lestarnar eiga að byrja að ganga á morgnanna. Veikir farþegar og það sem er verst, einhver lendir fyrir lest er ekki óalgengt. En í vikunni er alveg nýtt tilfelli að valda töfum á sumum línunum. Ég fékk þetta sms í gær frá skilaboðaþjónustu Travel of London :
Travel Alert 16:30: Minor delays on the District line whilst an unexploded World War II bomb at Bromley-by-Bow is made safe at the request of the police. Það er margt í mörgu eins og einhver sagði :-) Og þetta er engin smá sprengja, hún er heilt tonn að þyngd!

En að allt öðru. Smástirnin hér í Bretlandi hafa alltaf afsakanir á reiðum höndum þegar á þarf að halda. Lily Allen gerði sig t.d. að algjöru fífli í Glamour verðlaunapartýinu en það var sko ekki henni að kenna. Nei ekki aldeilis... það voru einhverjir vondir menn sem settu einhverja ólyfjan í G&T glösin hennar, í kampavínsglösin, í bjórinn og í vodkaglösin hennar. Ég held að það sé þá ótrúlega algengt, bæði hér og heima að einhverjum pillum sé laumað í glös ungra kvenna og jafnvel karla líka, miðað við ástandið sem er oft á liðinu. Ekki að ég sé einhver heilög kýr, síður en svo en ég næ því nú yfirleitt að koma mér sjálf heim, á eigin fótum meira að segja.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Long haired lover from Liverpool...

Ekki hefði mig órað fyrir því þegar ég var uþb 5 eða 6 ára gömul og fékk að hanga inní herbergi hjá leigjandanum og hlusta á The Osmonds í heyrnatólum meðan leigjandi sat sveittur yfir námsbókunum, að ég ætti eftir að sjá The Osmonds live í London nokkuð mörgum árum síðar og þá fyrst gera mér grein fyrir textanum í uppáhaldslaginu með litla sæta Jimmy Osmond... textinn í Long Haired Lover from Liverpool er náttúrulega bókmenntaleg snilld og ekki er myndbandið síðra. En ég var sem sagt boðin á 50 ára afmælistónleika The Osmonds á laugardagskvöldið og það var ótrúleg upplifun. Konan sem bauð mér er nokkrum árum eldri en ég og var einlægur aðdáandi mormónasystkinanna frá Utha og Donny Osmond var fyrsta ástin hennar. Og jeminn eini - um leið og þau birtust á sviðinu þá breyttist hún í öskrandi 14 ára táning! Þetta var ótrúleg upplifun, ég alveg í yngri kantinum og öskrandi miðaldra konur allt í kringum mig... algjörlega frábært. Ég er eiginlega hálf leið yfir að eiga ekki svona átrúnaðargoð síðan ég var krakki eða unglingur sem ég get svo öskrað mig hása yfir á afmælistónleikum eftir x mörg ár :-)
Annars rámar mig eitthvað í að ég hafi líka hlustað á Jackson 5 í heyrnatólunum hjá leigjandanum og fannst þeir jafnvel betri en The Osmonds

fimmtudagur, maí 29, 2008

Leturstærð...

Ég var rétt búin að pósta síðustu færslu með smáu letri þegar ég mundi að þær voru nokkrar sem gátu ekki lesið á götuskilti nema draga upp lesgleraugun. Þannig að héðan í frá verður þetta blogg birt með Arial Normal letri en ekki Arial Small svo skvísurnar geti nú lesið þetta án þess að setja 1500 króna lesgleraugun á nefið.

Ekki það að mér fannst þið voða sætar með gleraugun að rýna í matseðlana... merkilegt hvað þeir eru alltaf prentaðir með smáu letri en það er nú kannski skiljanlegt - annars væru þeir eins og símaskráin sumir hverjir :-)

Lifrin er rétt að jafna sig...

Eftir algjörlega massíva helgi með stórum hluta saumaklúbbsins að heiman er heilsan rétt að skríða saman og lifrin að slaka á. Eftir fimmtudagskvöld, föstudag og laugardag var sunnudagurinn í hálfgerðri þoku, heilinn í dvala og lifrin í verkfalli. Hún harðneitaði að taka við meira áfengi eftir kl. 1:00 á laugardagsnótt þannig að það hefur verið vatnið síðan. Þetta jafnaðist algjörlega á við góða verslunarmannahelgi hér í den. Og nú er sukkið að hreinsast úr skrokknum, meðal annars með frunsu á stærð við smáríki!

En við sem sagt drukkum, borðuðum og hlógum eins og þetta væri okkar síðasta og sumar versluðu líka í sama stíl. Ég held þær hafi lært þessa vefsíðu utan að áður en þær komu og jafnvel þessa líka. Ýmis gullkorn féllu eins og venjan er í þessum ferðum okkar. Má þar nefna "ég hef ekki verið svona full í marga klukkutíma"... "hvar eruð þið í garðinum" (Covent Garden) og eflaust mörg fleiri sem ég man ekki eða heyrði ekki.

En þetta var sem sagt dásamlega gaman og algjörlega nauðsynlegt að skreppa svona með vinkonunum annað slagið. Allt útlit er fyrir að ferðir klúbbsins verði allar um austur Evrópu næstu árin og jafnvel áratugina ef við förum eftir nýrri hugmynd kom upp: að heimsækja landið sem vinnur Eurovision það árið! Og þær vilja einhverjar taka kallana með!! Það líst mér alls ekki á, verð að segja það ;-)

En nú tekur sem sagt við hreinsunar- og heilsuvika og það var byrjað strax í gær með smáhlutatiltekt heima hjá mér. Þau ykkar sem hafið komið í heimsókn kannist eflaust við bunkana mína hér og þar um íbúðina sem samanstanda af undarlegustu hlutum og oft mesta furða að þeir hrynji ekki. Ég hef nefnilega þróað góða tækni í að raða saman í bunka öllu mögulegu og ómögulegu s.s. dagblöðum, tímaritum, snyrtivörum, eldfærum, eldhúsáhöldum o.fl. En núna er sem sagt búið að taka bunkann á stofuborðinu, í blaðagrindinni, í skálinni frammi í holi, báðar náttborðsskúffurnar og vaskafatið inná baði. Og þetta var sko slatti af drasli, það get ég sko sagt ykkur. Mikill léttir að taka svona skúrk og svei mér þá ef ég svaf ekki bara betur í nótt :-) Og svo er það salat í hádeginu, ræktin eftir vinnu, eitthvað hollt í kvöldmatinn og snemma í bólið. Helgin fer í slökun og leti og reyndar eina tónleika. Er að fara að sjá The Osmonds á laugardagskvöldið :-D Held að það verði alveg brjálæðislega fyndið og hlakka mikið til.

fimmtudagur, maí 22, 2008

Þjóðarsorg í Chelsea...

lá við að það mætti enn heyra snöktið og vælið í mönnum þegar ég labbaði í lestina í morgun. Ég verð nú að viðurkenna að ég horfði ekki einu sinni á leikinn heldur sat límd yfir The Apprentice sem er mun áhugaverðari en tuðruspark. Eina ástæðan til að horfa á fótbolta eru stinnir innanlærisvöðvar sparkaranna og síðustu ár hafa stuttbuxurnar síkkað svo mikið að það er ekki lengur hægt að kalla þær stuttbuxur - þetta eru hálfgerðar hnébuxur. Og ekki mega þeir lengur rífa sig úr að ofan til að fagna mörkum (ekki að það hafi gerst oft því það eru svo fá mörk skoruð í hverjum leik alla jafna) þannig að það er engin hvatning eftir til að horfa á þessa tilgangslausu íþrótt!


Löng helgi framundan hér í UK og hún verður ekki af verri endanum. Hvorki fleiri né færri en 8 skutlur frá Íslandi lenda hér í dag til að eyða helginni í tjútt og trall og hlátrasköll. Óeirðalögreglan er í startholunum og þegar hefur verið hafist handa við að rýma borgina! Annars hafa þessar elskur áhyggjur af því að missa af Eurovision! Hér hefur enginn áhuga á undankeppninni enda lenda Englendingar aldrei þar því þeir borga svo mikið til samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva. Andy Abraham keppir fyrir hönd Englands. Smá öskubuskusaga í orðsins fyllstu merkingu því áður en hann lenti í öðru sæti í X-Factor keppninni fyrir einu eða tveimur árum var hann öskukall. En ætli það verði sem sagt ekki endirinn að við stöllur horfum á undankeppnina á BBC3 eftir að hafa farið út að borða á Rocket, mjög svo huggulegan stað hér í Mayfair.

þriðjudagur, maí 20, 2008

Er einhver...

sem kíkir ennþá inná þessa blessuðu bloggsíðu? Látið í ykkur heyra og hver veit nema það verði tekin smá bloggskorpa :)